http://www.tidarandinn.is/node/265106

0 views
Skip to first unread message

Guðrún Ragnarsdóttir

unread,
Jan 25, 2011, 8:58:57 AM1/25/11
to Vatna
Vöxtur í Ölfusá
tidarandinn - 24. janúar 2011 - 13:06

* Fjölmiðlar

Rennsli Ölfusár eykst enn við Selfoss og nær hámarki síðdegis eða í
kvöld. Skemmdir urðu á vegum á Vestfjörðum vegna vatnavaxta og í
Húnaþingi þurfti að bjarga hrossum sem lentu í sjálfheldu vegna flóða.

Mikil rigning og hlýindi á suður- og vesturhluta hálendisins olli
flóðum um helgina. Vatn flæddi yfir vegi á Vestfjörðum og varar
Vegagerðin við skemmdum á vegum á Þröskuldum, í Steingrímsfirði og í
Dýrafirði. Á vefsíðunni Strandir.is segir að þar hafi í gær getið að
líta stöðuvötn þar sem engin voru áður og að smálækir hafi orðið að
skaðræðisfljótum.
Þá óx mjög í Víðidalsá í Húnaþingi og var Björgunarsveitin Húnar á
Hvammstanga kölluð út á laugardag þegar ljóst var að á þriðja tug
hrossa var innikróaður í hólma í ánni. Bændur í nágrenninu komu á
dráttarvélum og ruddu leið í gegnum klakahrönglið út í hólmann og
greiðlega gekk að ná hrossunum í land. Fram kemur á vef Húna að
tuttugu og fjögur hross hafi komið í land úr hólmanum.
Miklir vatnavextir voru einnig í Norðurá og Hvítá í Borgarfirði í gær
og einnig í Hvítá í Árnessýslu en nú hefur sjatnað í ánum og búist er
við að flóðin hafi gengið til sjávar síðdegis. Rennsli Þjórsár er nú í
hámarki og enn vex í Ölfusá við Selfoss og telur Veðurstofan að
rennsli árinnar muni ná hámarki seinni partinn í dag eða í kvöld.
Ísrek í ánum torveldar hins vegar mælingar Veðurstofunnar. Vatnavextir
í Ölfusá, Hvítá og Þjórsá eru þeir mestu frá árinu 2007. Eftir því sem
næst verður komist hefur hvergi orðið alvarlegt tjón vegna flóðanna.

Reply all
Reply to author
Forward
0 new messages