Nú skelfur jörð og skakast himnakroppar!
Bókstafir skríða í felur fyrir komandi fyrirsát, ljóðlistin tekur jóðsótt og
fæðir nýja bók: Af steypu, fimmta vers í afbókaflokki Nýhils!
Af steypu meðhöndlar sjálfa meðhöndlun tungumálsins, setur efnið í fyrirrúm
og spyr sig: Hvað á þetta allt saman eiginlega að þýða? Hvað er hægt að gera
með ljóðlistinni? Myndljóð, konkretljóð, endurvinnsla, hömlur,
konseptljóðlist - möguleikarnir virðast óþrjótandi. Bókin er svo stútfull af
ljóðverkum og ritgerðum, bæði frumsömdum og þýddum, að bókahillur hreinlega
svigna og fílefldir burðarþrælar Nýhils eru við það að kikna í hnjáliðum.
Fullvíst má telja að svo veglegt rit um ljóðlist hafi ekki komið út á
Íslandi í langan tíma.
Ritstjórar Af steypu eru Eiríkur Örn Norðdahl og Kári Páll Óskarsson, en
meðal höfunda efnis eru Gertrude Stein, Guillaume Apollinaire, Charles
Bernstein, Inger Christensen, Gyrðir Elíasson, Óskar Árni Óskarsson, Sjón og
margir, margir fleiri. Leiðbeinandi verð bókarinnar er kr. 3990 og er hún
til sölu í öllum betri bókaverslunum. Hún er í kiljuformi og 284 síður að
lengd.
Svör við öllum spurningum veita ritstjórar:
Eiríkur: kolbrun...@gmail.com
Kári: ka...@kommunan.is