You do not have permission to delete messages in this group
Copy link
Report message
Show original message
Either email addresses are anonymous for this group or you need the view member email addresses permission to view the original message
to islenskastaerdfraedafelagid
Heil og sæl,
Hér eru nokkrir fréttamolar:
Verðlaunasjóður Sigurðar Helgasonar veitti tveimur nemendum í stærðfræði viðurkenningu 2. október síðastliðinn fyrir góðan námsárangur. Viðurkenninguna hlutu Alexander K. Bendtsen og Benedikt Vilji Magnússon, nemendur á þriðja ári í stærðfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Heildarupphæð verðlaunanna nemur 12.500 bandaríkjadölum, jafnvirði rúmlega 1,5 milljónum króna.
Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna fór fram þriðjudaginn 30. september og tóku rúmlega 200 nemendur þátt, sem er fjölgun frá síðasta ári. Efstu 15 nemendur af neðra stigi og efstu 25 af efra stigi munu hljóta viðurkenningu á mánudaginn næsta auk þess sem þeim verður boðið að taka þátt í lokakeppninni í vor.
Við viljum vekja athygli ykkar á Minningarsjóði Hjalta Þórs, en tekið er við umsóknum í hann til 15. nóvember. Hnippið endilega í nemendur sem þið teljið að ættu erindi að sækja í sjóðinn.
Minningarsjóður Hjalta Þórs Ísleifssonar var stofnaður í upphafi árs 2024 af Heiði Hjaltadóttur, móður Hjalta Þórs, en hann féll frá 15. desember 2023. Tilgangur sjóðsins er að hvetja efnilega stærðfræðinema til dáða og gefa þeim tækifæri til framhaldsnáms í stærðfræði. Nemendur sem lokið hafa kröfum fyrstu tveggja námsára í stærðfræði við Háskóla Íslands eiga kost á að sækja um styrki í sjóðinn.
Fyrstu styrkir úr Minningarsjóði Hjalta Þórs voru veittir 4. janúar sl. en stefnt er að því að veita næst úr sjóðnum þann 3. janúar 2026. Opið er fyrir umsóknir til 15. nóvember nk. og skulu umsóknir sendar á netfangið minningarsjod...@gmail.com.
Umsækjendur skulu skrifa stutta greinargerð um sjálfa sig, þar sem eftirfarandi þarf að koma fram:
Námsárangur.
Áhugasvið.
Framtíðaráform varðandi nám.
Hvernig umsækjandi hyggst nýta styrkinn.
Annað sem umsækjandi telur skipta máli og tengist stærðfræðinámi, svo sem kennslureynsla eða þátttaka í stærðfræðikeppnum og rannsóknaverkefnum.
Auk þess skal óska eftir umsögn kennara sem þekkir háskólanám umsækjanda vel. Kennari sendi umsögnina beint á netfang sjóðsins minningarsjod...@gmail.com. Stjórn Minningarsjóðs Hjalta Þórs fer yfir og metur umsóknir. Öllum umsækjendum verður svarað um leið og styrkhafar hafa verið valdir. Upplýsingar um styrkveitingarathöfnina verða auglýstar síðar.